Alþjóðlega rannsóknin mikla: Sc-Ice
„Riðurannsóknin mikla“ – hér eru íslenskir sauðfjárbændur og riðusérfræðingar frá Þýskalandi, Englandi, Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Íslandi að vinna saman. Vísindamennirnir eru vanir að þurfa að sannfæra bændur um að taka þátt í rannsóknum og þeir eru mjög ánægðir að í þessu tilfelli var það öfugt – bændurnir áttu frumkvæði að verkefninu, höfðu samband við sérfræðinga sem svo vatt heldur betur upp á sig. ESB-vísindasjóðurinn ICRAD samþykkti 190 milljóna króna styrk í fjórþætta rannsókn.
Af hálfu Íslands eru Stefanía Þorgeirsdóttir, Vilhjálmur Svansson (bæði á Keldum), Eyþór Einarsson (RML) og ég með í hópnum.
Ísland býður upp á einstakar kringumstæður út frá sjónarhorni vísindamanns. Sauðfjárstofninn hefur verið einangraður í langan tíma og er þrátt fyrir innflutningstilraunir að langmestu leyti laus við áhrif annarra sauðfjárkynja. Á sama tíma datt Íslendingum aldrei í hug að banna ákveðna liti eða hornfjölda eða útlit eins og langflestar þjóðir Evrópu gerðu til að búa til „kyn“, það eru engar „skúffur“ = sauðfjárkyn til innan Íslands. Þess vegna er erfðafjölbreytileikinn óvenju mikill þótt stofninn hafi tekið miklum sveiflum í gegnum aldir, t.d. út af harðindum eða fjárpestum.
En þrátt fyrir allan fjölbreytileika eru breytileikarnir sjö, sem koma fyrir í stofninum, mjög misjafnlega dreifðir og einmitt þeir, sem eru mestu vonir bundnar við, nema bara hverfandi lítinn hluta stofnsins: R171 = ARR (núna í örum vexti) og T137 (enn afar sjaldgæft). Auk þess kom sjúkdómurinn líklega með einum ákveðnum hrút til landsins – tími og upphafsstaður eru þekktir og einnig útbreiðslusagan. Það er einstakt. Ekki síst er riða á meðal sauðfjárbænda á „áhættusvæðum“ mikilvægt umræðuefni, margir bændur hafa lengi pælt í þessum efnum; þetta er mikilvæg uppspretta dýrmætra upplýsinga sem nýtast mjög vel í rannsóknum.
Einstakt og ómetanlegt er umfangsmikla sýnasafnið úr miklum fjölda ólíkra riðuhjarða sem er varðveitt á Keldum, allt frá árinu 1953, sem vísindahópurinn hefur aðgang að undir stjórn Stefaníu. Þessi sýni hafa verið grunnurinn að öllum rannsóknum sem nota íslensk smitefni, einnig að samanburðarrannsóknum arfgerða í riðuhjörðum.
Í stuttu máli: Við erum svo heppin að íslenska riðuvandamálið hefur mikið aðdráttarafl fyrir alla sannkallaða riðusérfræðinga og uppgötvanir á þessu sviði geta nýst kindum og þar með sauðfjárbændum víða um heim.
Þegar styrkurinn var staðfestur, birtist ítarleg frétt um verkefnið á heimasíðu Keldna. Þar finnst líka slóð að enn ítarlegri grein í Morgunblaðinu. Christine Fast verkefnisstjóri kynnti verkefnið sem heild í fjárfyrirlestri sumarið 2023 – sjá hér, 01:10:08.
Verkþættirnir fjórir
WP („work package“) 1: ómissandi fyrir íslenska bændur
a) Breytileikar og arfgerðir íslenska sauðfjárstofnsins – raðgreiningar um 4.000 sérvalda gripa. T137 og seinna R171 (= ARR) fundust. Verkefnisstjóri: Gesine Lühken, Þýskalandi
b) PMCA-næmispróf í tilraunaglasi – 13 ólík íslensk smitefni voru prófuð á 16 mismunandi arfgerðir. Verkefnisstjóri: Vincent Béringue, Frakklandi
c) Smittilraunir með T137-músum – Íslensku smitefnin eru prófuð á erfðabreyttar mýs sem líkja eftir T137-kindur. Verkefnisstjóri: Juan Carlos Espinosa, Spáni
Undirverkefnunum a) og b) er þegar lokið en þessi tvö verkefni voru fjármögnuð úr Þróunarsjóði sauðfjárræktar til að missa ekki tíma. Við tímdum ekki að bíða eftir mögulegum ICRAD-styrk sem kæmi þá kannski aldrei, heldur við vildum byrja strax – nefnilega vorið 2021 (en ekki – kannski – 2023). Þessi ákvörðun bar mikinn árangur.
Umfram b) er framkvæmt RTQuIC-næmispróf með ólíka nálgun, sem virkar eingöngu á arfhreinum arfgerðum. Niðurstöður væntanlegar í byrjun 2025. Fiona Houston, Charlotte Thomas, Englandi.
WP2: Þróun riðustofna – stofngreining íslenskra smitefna:
10 ólík smitsýni notuð á mismunandi músategunda, stofngreining eftir alþjóðlegum stöðlum. Ályktanir varðandi þróun stofnana síðan riða kom til landsins 1878. Fyrstu niðurstöður væntanlegar í lok 2025. Christine Fast, Þýskalandi; Juan Carlos Espinosa, Spáni; John Spiropoulos, Englandi; Romolo Nonno, Ítalíu.
WP3: Umhverfissmit
Smitmælingar á fjárhúsinréttingum riðubæja á mismunandi tímapunktum innan sótthreinsuferlisins; samanburður við riðulaust bú. Niðurstöður væntanlegar 2025. Kevin Gough, Ben Maddison, Englandi.
WP4: Faraldsfræðileg rannsókn, hagfræðilegt líkan ólíkra útrýmingavalkosta
Niðurstöður úr WP1, WP2 og WP3 eru ásamt nýjum gögnum notaðar til að meta smithættu við aðstæður á Íslandi; auk þess á að meta áhrif faraldsfræðilegra þátta á hagkvæmni mismunandi útrýmingavalkosta. Jörn Gethmann, Lina Spiess, Þýskalandi.
Vettfangsferðir hópsins
Gesine kom til landsins haustið 2021, heimsótti nokkra bæi á Suðurlandi, Norðurlandi og Norðausturlandi ásamt því að bjóða upp á opinn bændafund á Löngumýri í Skagafirði. Hér er hægt að hlusta á fyrirlesturinn hennar (sem var þýddur jafnóðum):
Allur rannsóknarhópurinn heimsótti „upphafssvæði“ riðuveiki – fjölda bæja í Skagafirði/Eyjafirði – í júní 2023, hitti fulltrúa MAST og hélt mjög vel sótt upplýsingarkvöld um fyrstu niðurstöðurnar í Varmahlíð. Myndin fyrir neðan var tekin á Hólum, þar sem hópurinn gisti – Gísli Gunnarsson, fyrrverandi sauðfjárbóndi, prestur og núverandi biskup tók á móti vísindamönnunum. Hér eru upptökur af upplýsingarkvöldinu á íslensku:
Þríðji fundurinn verður í nóvember 2024 á Keldum.