Geitur! Hvað með þær?
Geitur eru erfðafræðilega mjög líkar sauðkindum, þess vegna geta þær einnig smitast af sömu riðustofnum og sauðfé. Í löndum með stóra geitastofna hafa geitur smitast í stórum stíl, t.d. á Kýpur.
Til þessa hefur ekki fundist nein riðujákvæð geit hér á landi, en það er líklega bara heppni:
- geitastofninn er mjög lítill og líkurnar þess vegna minni að rekast á jákvæðan grip í venjulegri riðuskímun
- til þessa hafa eingöngu einu sinni verið geitur á sama búi þar sem riða hefur greinst í sauðfé; það var á Grænumýri í Skagafirði og viðkomandi jákvæði hrútur (sem var upphaflega frá Stóru-Ökrum) smitaði ekki fleiri gripi í (kinda-)hjörðinni þrátt fyrir að hafa verið þar í nokkur ár – því kemur ekki á óvart að hann smitaði heldur ekki neinar geitur
- kenningin að íslenskar geitur sé ónæmar fyrir riðu er ekki hægt að staðfesta út frá arfgerðum þeirra í príonpróteini
Þótt príonprótein geita sé í rauninni alveg eins og príonprótein sauðkinda – villigerðin er ARQ/ARQ einnig þar -, hafa geitur þróað öðruvísi stökkbreytingar þar. Umfangsmiklar rannsóknir á príonpróteini geita áttu sér stað víða um heim; ARR hefur ekki fundist neins staðar, en AHQ og almennt mjög margar stökkbreytingar í alls konar sætum þar sem sauðfé hefur ekki sýnt neinar stökkbreytingar. Síðan 2017 eru þrír breytileikar í tveimur mismunandi sætum alþjóðlega viðurkenndir sem verndandi gegn riðu:
- D146
- S146
- K222
Áhugavert: Þótt ARR sé eingöngu í arfhreinu formi (ARR/ARR) talið algjörlega ónæmt, virðast þessir breytileikar veita sambærilega vernd þegar í arfblendnu formi (D146/ARQ, S146/ARQ, K222/ARQ). Til þess er tekið tillit í ESB-reglugerðum. Þar með er hægt að byggja upp þolinn geitastofn mjög hratt – það dugar að nota arfhreinan hafur og strax eru öll afkvæmin hans riðuþolin! (Smá athugasemd: Það er ekki útilokað að T137 virkar eins vel í arfblendnu formi – meira um það í kaflanum um þennan breytileika.)
Breytileikar á Íslandi – rannsókn framundan
Í samhengi við fyrstu raðgreiningarnar sauðfjár 2021, sem Gesine Lühken, Þýskalandi, sá um, voru líka raðgreindar 145 geitur. Í tengslum við svissneskt rannsóknarverkefni (um hálsóttar geitur) var hægt að láta raðgreina 80 geitur í viðbót – það þýðir að við þekkjum arfgerðir 225 geita, sem samsvarar u.þ.b. 10% stofnsins. Hér er hægt að sjá gripina og arfgerðir þeirra (xls-skjal):
Í sýnunum í töflunni fannst eingöngu 1 breytileiki sem er auk þess „þögull“ (þ.e. amínósýran sjálf er sú sama og áður, hún er bara öðruvísi samansett). Þessi breytileiki er í sætinu 138 og heitir S138S, hann kemur fyrir í arfblendnu og arfhreinu formi. Auk þess eru þónokkrar geitur með villigerðina ARQ/ARQ (engin stökkbreyting).
Í PMCA-næmisprófunum Vincents Béringue í Frakklandi (sem gerði þessi próf ókeypis og Jóhanna á Háafelli lagði til geiturnar til þess) kom því miður fram að þessi breytileiki S138S veitir enga vernd gegn riðu í samanburði við ARQ/ARQ. Þess vegna mæla Vincent og Gesine með því að greina allan stofninn – markmið: að finna breytileikana D146 eða S146 eða K222, og skoða í leiðinni hvort H154 (AHQ) sé að finna. Áætlað er að geitabændur fara í þetta strax haustið 2024, vonandi með styrkjum frá Matvælaráðuneytinu (staða: ágúst 2024).
Norskar geitur með „óvirkt“ príonprótein
Einn möguleiki í viðbót er til staðar sem á að athuga ef ofangreindu verndandi breytileikar skulu ekki finnast á Íslandi: stökkbreyting í sætinu 32, sem gerir príonpróteinið óvirkt og þar með ónæmt fyrir riðu (kölluð „nonsense mutation“). Slík stökkbreyting hefur fundist í norskum geitum. Ítarleg grein um þær á ensku er hægt að lesa eða hala niður hér: