T137 (vonarstjarnan)
Staða: ágúst 2024
T137 er með ljósgrænt flagg í Fjárvís („mögulega verndandi“ eða „MV“).
Það helsta: T137 er langbest rannsakaði breytileikinn fyrir utan hefðbundna 3-sæta-kerfisins (136, 154, 171) og auk þess eru niðurstöðurnar allra rannsókna samhljóða: að T137 búi yfir mjög sterka mótstöðu gegn riðusmiti, mögulega þegar sem T137/ARQ; aldrei hefur fundist neinn riðujákvæður T137-gripur, hvorki með hefðbundna né með atýpiska riðu.
T137 er með Þreonín (T) í staðinn fyrir metíonín í sætinu 137. Breytileikinn virðist hafa verið algengara á Íslandi áður fyrr en í dag, gamli íslenski stofninn á Grænlandi er með 7% T137 í dag (sjá hér), hér á landi var tíðni 1999 líklega um 1 til 2% (miðað við genasamsætur – en þar sem arfhreinir gripir eru mjög fáir, samsvarar þessi tíðni líka u.þ.b. fjölda einstaklinga).
Hann er ekki nema 0,2 til 0,3% í dag sem er varla meira en þegar hann enduruppgötvaðist haustið 2021. En ólíkt R171 (ARR) með eingöngu 2 uppsprettur til þessa fundum við þá 9 ólíka og alveg ótengda „T137-upprunabæi“. Þótt Litli-Árskógur sé því miður dottinn út, er erfðafræðilegi grunnurinn talsvert breiðari en við R171:
Verndandi á Ítalíu
Á Ítalíu voru framkvæmd allar nauðsynlegar lykilrannsóknir til að skilgreina T137 sem að minnsta kosti eins verndandi og R171 (ARR):
- samanburðarrannsóknir (case-control-studies) á 5 riðuhjörðum með yfir 7.000 kindur á verstu riðusvæðum
- smittilraunir
- PMCA-næmispróf
Aðferðinni „samanburðarrannsókn“ er lýst hér og PMCA-næmisprófi hér.
„Kom algjörlega á óvart“
Romolo Nonno, sem er með í alþjóðlega rannsóknarhópnum, var einn af þeim vísindamönnum sem uppgötvuðu sérstæðu breytileikisins 2007 – sem kom „algjörlega á óvart“.
Það kom þannig til að smittilraunir með kindur voru framkvæmdar til að athuga nánar virkni „klassískra“ arfgerða á borð við VRQ, ARQ, AHQ og ARR gagnvart sauðfjárriðu og kúariðu. Teymið bjóst við að allar ARQ/ARQ-kindur myndu smitast, það var bara spurning hvað það tæki langan tíma. En í ljós kom að sumar ARQ/ARQ-kindur smituðust bara ekki en voru fullheilbrigðar eftir að fjögurra ára rannsóknartímabili lauk. Þær lifðu meira að segja þónokkur ár í viðbót, urðu eldri en 10 ára og jafnvel eftir dauða þeirra fundust engin riðueinkenni – hvorki í heilanum né í eitlum.
Þessar kindur voru annaðhvort með T137 eða K176 eða báðar, „ofan“ á ARQ – það bara sást ekki, þar sem eingöngu hefðbundnu þrjú sætin 136, 154 og 171 voru arfgerðagreind áður en smittilraunirnar hófust. (Ítarleg grein um smittilraunirnar finnst hér. Samantekt er einnig að finna í greininni um samanburðarrannsóknirnar.)
Þetta kom á óvart og þótt það hefði í rauninni ekki verið „nauðsynlegt“ (því ARR fannst í þessu sauðfjárkyni líka) voru þessir breytileikar skoðaðir nánar í tveimur umfangsmiklum rannsóknum:
- Samanburðarrannsóknir á 5 hjörðum á verstu riðusvæðum Ítalíu (Toscana og Sardinia) með samtals 7.700 kindur: engin riðujákvæð kind reyndist með T137 – þrátt fyrir tíðni á milli 9 og 34% í þessum hjörðum – oghámarktækar tölur náðust (ítarleg grein finnst hér)
- og í svokölluðu PMCA-prófi þar sem líkt er eftir smitferlinu í tilraunaglasi (ítarleg grein hér – á þeim tíma var aðferðin enn á prufustigi).
Niðurstöðurnar allrar rannsóknar staðfestu að T137 væru eins verndandi og ARR. Margt bendir meira að segja til þess að verndandi áhrif arfgerðarinnar T137 virki í arfblendnu formi (T137/ARQ) eins vel og í arfhreinum ARR-kindum (ARR/ARR) – líkt og D146, S146 og K222 í geitum, sem eru þegar í arfblendnu formi með ARQ viðurkenndir. Síðast en ekki síst: Frá 2004 hafa allar riðujákvæðar kindur á Ítalíu verið raðgreindar, til þessa 3.109 með hefðbundna riðu og 122 með atýpiska riðu, og til dagsins í dag hefur aldrei fundist kind með T137 sem var jákvæð – þótt þessi breytileiki sé algeng í Sardafé sem er aðalkynið á verstu riðusvæðum landsins (T137-tíðni á milli 10 og 35 prósent).
Stóra spurningin er hvort ítölsku rannsóknirnar er hægt að færa yfir á Ísland þar sem ítalski riðustofninn er nokkuð sérstakur. Til þessa bendir allt til þess að svarið sé „já“:
- PMCA-prófin á 13 mismunandi íslenskum smitefnum komu öll mjög svipuð út varðandi T137-arfgerðir, nefnilega best af öllum breytileikum (prófuð voru T137/ARQ, T137/AHQ, T137/ARR, T137/T137); til samanburðar var einnig notað ítalskt smitefni og útkoman var eins. Íslensku smitefnin virkuðu mjög misjafnlega á arfgerðirnar ARQ og VRQ – það þýðir að greinilega náðist fjölbreytt úrval af smitefnum; samt er útkoman varðandi T137 mjög góð varðandi öll. Þess vegna er svo gott sem útilokað að T137 virki ekkert á Íslandi.
- Til þessa hefur aldrei fundist riðujákvæður gripur með T137 hér á landi þótt gögn um T137-gripi liggi fyrir úr nokkrum riðuhjörðum frá 1997 til 2023. Sökum lágrar tíðni náðust því miður samt enn ekki marktækar tölur (öryggið er „bara“ 56%, en þarf að vera 95% til að kallast marktækt). Unnið er að því að bæta fleirum gömlum riðuhjörðum inn í samanburðarrannsóknina til að ná vonandi bráðum marktækni. Auk þess erum við að bíða eftir niðurstöðum úr gamalli riðuhjörð í Hjaltlandi (í Hjaltlandsfé er T137-tíðni um 5%).
- Til að meta þessi verndandi áhrif á nákvæmara hátt væri best að skoða T137-gripi (arfblendna og arfhreina) í riðusmituðu umhverfi hér á landi í nokkur ár; núverandi ræktunarreglur fyrir riðuhjarðir koma í veg fyrir að svoleiðis gögn verða til.
Af hverju er samt ræktað ARR á Ítalíu, en ekki T137?
Ástæðan er að R171 (ARR) hefur alltaf verið algengt í ítölsku sauðfjárkynunum – þess vegna virtist ekki nauðsynlegt að skipta um stefnu. Ekki síst er Ítalía í ESB og þar er það alltaf flóknara að fara sínar eigin leiðir. En ESB-skýrsla frá 2014 um árangur 10 ára ræktunarstefnu í riðumálum nefnir T137 og verndandi áhrif þess sérstaklega.
Mikilvæg athugasemd: meintar jákvæðar T137-kindur greiningarmistök?
Það er til vísindagrein frá 2009 sem nefnir 4 einkennislausar kindur á Ítalíu með T137/ARQ sem greindust með riðu í heilanum, en ekki eitlunum. Ég athugaði þetta betur og samkvæmt öruggum heimildum voru þessar niðurstöður afar umdeildar á sínum tíma, því viðkomandi heilasýni reyndust riðuneikvæð þegar þau voru til öryggis endurgreind á Ítölsku aðalrannsóknarstofunni í Róm. Aldrei fyrr né síðar fundust sem sagt riðujákvæðir gripir með T137 og margt bendir til þess að hér væri um ranga greiningu að ræða.
Ekki mörg þekkt kyn
Ekki mörg sauðfjárkyn með T137 eru þekkt – en mörg kyn hafa eingöngu verið arfgerðargreind fyrir sætin 136/154/171. Þannig að það gætu bæst fleiri í hópinn ef ARQ-gripir yrðu raðgreindir.
Mestu máli skiptir Sarda-fé í kringum Miðjarðarhafið. Svo er það Svart-mórautt fjallafé í Sviss og stuttrófukynið Hjaltlandsfé. Ég læt fylgja myndir af tveimur svissneskum hrútum með T137/ARR og T137/T137 (við vorum svo heppin að Agrobiogen bjó yfir DNA frá þessu kyni í geymslum sínum sem við máttum raðgreina – fullt af T137 kom í ljós!).