Grænland heillar: gamall stofn, T137, ARR
Á Grænlandi eru rétt um 19.000 vetrarfóðraðar kindur á 39 búum. Fjárbúskapurinn er í dag fyrst og fremst í Eystribyggð sem er í suðvesturhluta Grænlands og var aðal byggðarlag norrænna manna á Grænlandi á öldum áður. Það sem er sérstakt við þessar kindur: Þær eiga ættir að rekja til Sveinsstaða, Hóla og Hrafnkelsstaða – frá þessum búum voru upp úr 1915 fluttir gripir til Grænlands til að byggja upp nýjan fjárstofn þar. Áhugavert: Á þeim árum var riða fyrir löngu orðin landlæg á Norðurlandi vestra. Einnig spennandi: Einmitt þessi gamli fjárstofn hvarf á þessu svæði rúmlega 30 árum seinna í mæðiveikiniðurskurði.
Þess vegna eru kindurnar á Grænlandi í dag eins og „gluggi í fortíðina“, ekki síst þar sem áhrif frá öðrum sauðfjárkynjum er hverfandi lítill, eins og rannsókn Oluseguns Adenyji, doktórsnema, undir leiðsögn Gesine Lühken sýndi fram á 2022. Á eftirfarandi mynd sést glöggt að grænlenski stofninn (ljósblár) er
a) erfðafræðilega mjög skýrt afmarkaður og
b) miklu nær íslenska nútímastofninum en nokkru öðru kyni og augljóslega íslenskur stofn.
Samhliða sauðfjárslátrun haustið 2021 voru tekin 227 sýni úr nærri öllum sauðfjárbúum Grænlands. Þessi sýni voru raðgreind og niðurstöðurnar voru vægast sagt mjög áhugaverðar: Breytileikarnir voru einmitt sömu og hafa fundist á Íslandi, nema einn að auka (T112) – og bæði R171 (ARR) og T137 eru talsvert algengara en hér á landi! Heilt yfir séð er samsetning stofnsins aðeins jafnari þar, eins og sést hér:
ARR-gripir koma frá 11 búum sem dreifast nokkuð víða en hér má sjá hvar búin eru staðsett sem þeir gripir koma frá:
Varðandi T112: Samkvæmt rannsóknum eru áhrif hans á þol gegn riðu enn óljós – í ákveðnum kynjum virðist hann virka að vissu leyti verndandi en á hinn boginn er hann frekar tíður meðal riðujákvæðra gripa á Ítalíu.
Í lokin læt ég fylgja nokkrar skemmtilegar myndir, sem Merete Rabölle, Ujuaanaaraq Poulsen og Henrik Motzfeldt Egede tóku á Grænlandi: