Breytileikar, arfgerðir, Fjárvís-flögg

Þetta yfirlit skiptir líklega mestu máli fyrir bændur. Hér er talað um hvern og einn breytileika sem finnst á Íslandi og þol/næmi þess gegn riðusmiti – samkvæmt stöðu þekkingar. Lýst er stöðu þekkingar í dag sem skiptir máli fyrir íslenska bændur, einnig eru slóðir að vísindalegum rannsóknarskýrslum.

Þessar upplýsingar eru uppfærðar strax þegar nýjar niðurstöður úr rannsóknum liggja fyrir.

Hvað „breytileiki“ þýðir í þessu samhengi, er útskýrt hér.

Mikilvægt: Í „arfgerðum“ með tveimur ólíkum breytileikum skiptir engu máli, hvaða breytileiki er nefndur fyrst – næmi er eins. Og báðir breytileikar hafa áhrif á næmi arfgerðarinnar – meira um næmi hér.

Annars smellirðu bara á viðkomandi breytileika hér fyrir neðan til að komast á síðu breytileikans:

Í stuttu máli: Grænt er best, og blátt er miklu betra en gult eða rautt.

Græn, en röndótt flögg verða sjálfkrafa til hjá afkvæmum gripa sem eru arfblendnar fyrir grænu breytileikunum, en eru ekki arfgerðagreind sjálf:

  • ljósgrænar/dökkgrænar rendur: foreldrið er með T137 eða C151 eða H154 (AHQ) og auk þess með R171 (ARR)
  • ljósgrænar/hvítar rendur: foreldrið er með tvo ólíka ljósgræna breytileika (t.d. T137/C151)

Það er alveg sama hvort þú notar heitið VRQ eða V136. Að vissu leyti er það nákvæmara að segja V136, sérstaklega ef þú talar líka um C151 eða T137, þar sem það er engin skammstöfun til fyrir þau. Á hinn bóginn heitir ARQ alltaf ARQ, því það er enga stökkbreytingu þar að finna sem eitthvað númer gæti vísað í. Og þótt margir bændur noti H154 í staðinn fyrir AHQ, virðast allir tala um ARR (eða meira að segja „Arr“), en ekki R171 … (Það er greinilega ekki einfalt að ákveða sig!)

Ónákvæmt er hins vegar að tala eingöngu um bláar eða grænar kindur (ekki síst ef gular kindur stinga upp kollinum – ég tók eftir þessu um daginn í samhengi við rannsóknina mína um erfðir gula og kolótta litarins!), þar sem þessi flokkun getur breyst þegar nýjar rannsóknarniðurstöður liggja fyrir. Einnig eru þrír mismunandi breytileikar með ljósgræna litinn – þótt það sé í rauninni mikill munur á þeim!

En litirnir hjálpa til að fá gróft yfirlit og eru (miklu) betri en ekki neitt.

Hvernig túlkar maður þessa stafi í dálkunum í Fjárvís? Hvað með stundarglösin?

Upprunalega ástandið príongensins er þannig í þessum sex sætum (bókstafir standa alltaf fyrir ákveðna amínósýru): AA, MM, SS, RR, RR, QQ. (Ef maður skoðar bara 136, 154 og 171: AA, RR, QQ = ARQ/ARQ.)

Ef hins vegar stökkbreyting átti sér stað, er öðruvísi amínósýra í viðkomandi sæti. Þá eru öðruvísi stafir í viðkomandi dálknum:

  • sæti 136: V í staðinn fyrir A. AV = arfblendið V136 (VRQ), VV = arfhreint V136 (VRQ).
  • sæti 137: T í staðinn fyrir M. MT = arfblendið T137, TT = arfhreint T137.
  • sæti 138: N í staðinn fyrir S. SN = arfblendið N138, NN = arfhreint N138.
  • sæti 151: C í staðinn fyrir R. RC = arfblendið C151, CC = arfhreint C151.
  • sæti 154: H í staðinn fyrir R. RH = arfblendið H154 (AHQ), HH = arfhreint H154 (AHQ).
  • sæti 171: R í staðinn fyrir Q. QR = arfblendið R171 (ARR), RR = arfhreint R171 (ARR).

Stundarglösin við gripinn:

  • Appelsínugult stundarglas við gripinn þýðir að hér er bara um sjálfvirka útreikningu að ræða („Fjárvís-greining“) sem byggir á arfgerðum foreldranna.
  • Grænt stundarglas er „raungreining“, þ.e. sýni úr gripnum sjálfum var arfgerðargreint.
  • Blátt stundarglas táknar „aðrar arfgerðagreiningar“, t.d. varðandi Þokugen eða gula fitu.

Nærri alltaf er hámark 1 stökkbreyting til í hverri genasamsætu („helmingi“), þ.e. 2 stökkbreytingar á kind eru mögulegar – til dæmis T137/N138. Fleiri en 2 eru ekki eðlilegar (eða afar sjaldgæfar – hafa aldrei fundist í íslensku fé til þessa). Ef svoleiðis kemur fram, þá er best að þið hafið samband við Guðrúnu Hildi hjá RML – það þarf að endurtaka greininguna.