H154 (AHQ; efnilegt)

Það helsta: Breytileikinn virðist búa yfir mikla mótstöðu gegn riðu á Íslandi – til þessa hafa eingöngu 2 riðujákvæðir gripir fundist með AHQ/ARQ og enginn með AHQ/AHQ eða aðra samsetningu. En hann var lengi frekar sjaldgæfur og þar með lítið til af arfhreinum gripum sem hugsanlega gátu veikst. Erlendar rannsóknir virðast bara af takmarkaðu gagni, þar sem H154 virðist næmari þar en hér á landi (hér er mesta óvissan til þessa). Allar kindur sem greindust með atýpiska riðu á Íslandi hafa verið með AHQ.

Breytileikinn er með histidín (H) í staðinn fyrir argínín (R) í sætinu 154.

Hann er algengur í flestum sauðfjárkynjum en með misjafnlega hátt hlutfall (áður en ræktun fyrir ARR hófst í flestum kynjum). Fyrstu árin þegar breytileikar á Íslandi og næmi þeirra voru rannsakaðir, kom enginn riðujákvæður gripur með H154 (AHQ) fram. Þess vegna var breytileikinn upphaflega kallaður „verndandi“. Þetta heiti hélst í meira en tuttugu ár, þótt fyrsta riðujákvæða kindin með AHQ/ARQ fyndist 2004 á Syðri-Húsabakka, og var notað líka í hrútaskrám – án þess að nota skammstöfun. (Af tilviljun komst ég að því að þessi venja leiddi að grundvallarmisskilningi hjá ræktendum í Noregi, sem keyptu íslenskt sæði á sínum tíma. Þeir héldu að þessir hrútar væru með ARR – „verndandi“! Hugsa sér: Á þeim tíma héldu Íslendingar að ARR sé alls ekki að finna hér á landi!)

Bara fáir bændur nýttu sér þennan möguleika að byggja upp eitthvert riðuþol, þess vegna var breytileikinn lengi sjaldgæfur (3-4% gripa 1999) og þar sem markviss ræktun vantaði, voru arfhreinir gripir algjörar undantekningar (0,1% gripa 1999). Samt voru sumir bændur mjög metnafullir og náðu frábærum árangri á fáum árum, sérstaklega Ytra-Vallholt, annað dæmi er Krithóll – báðir bæir á einu versta riðusvæði landsins í kringum Varmahlíð.

2017 fannst annar jákvæður gripur með AHQ/ARQ á Urðum, sem var meira að segja bara gemlingur. Þegar „rannsóknarröðin mikla“ hófst 2021, var AHQ þess vegna fyrst kallað „lítið næmt“ og merkt blátt.

Þetta breyttist haustið 2023 – breytileikinn heitir núna „mögulega verndandi“ og er ljósgrænn – eftir að eftirfylgjandi niðurstöður lágu fyrir:

  • Í samanburðarrannsókn á 14 íslenskum riðuhjörðum – vísindalega “sterkasta” rannsókn í þeim efnum – náðust hámarktækar tölur fyrir arfgerðina AHQ/ARQ: Það er um 33 sinnum ólíklegra að kind með AHQ/ARQ veikist af riðu en kind með ARQ/ARQ, þ.e. hún er 3300% riðuþolnari (þetta er meira en 99,99% öruggt). Meira um þessa rannsókn – sem flokkast sem umfangsmikil og haldbær einnig á alþjóðlegan mælikvarða – finnst hér.
  • Sama er að segja um PMCA-næmisprófin – allar prófaðar arfgerðir með AHQ (AHQ/ARQ, AHQ/AHQ, AHQ/ARR, AHQ/C151 og AHQ/N138) komu vel eða mjög vel út hjá öllum notuðum smitefnum. Arfgerðin AHQ/N138 sýndi meira að segja fullkomna vörn og kom betur út en ARR/ARQ.
  • Aldrei hefur á Íslandi fundist riðujákvæður gripur með AHQ í öðrum samsetningum en með ARQ.
  • Á bæjum með mikla smitpressu úr umhverfinu, þar sem samt aldrei hefur komið upp riða eða riða hvarf án niðurskurðar, virðast AHQ og N138 algengara en á öðrum bæjum, að hluta til talsvert algengara. Dæmi: Kárdalstunga, Glaumbær, Víðimýrarsel, Sólbakki.
Fleiri gögn í framtíðinni

AHQ er algengastur af ljósgrænu breytileikunum, þess vegna eru (ólíkt C151 og T137) líkurnar góðar að ná gögnum úr nýjustu riðuhjörðum næstu árin, þegar gripir með AHQ/ARQ lifa áfram í smituðu umhverfi. Þegar þeim er eftir nokkur ár slátrað eða verða sjálfdauðir, verða tekin heila- og eitlasýni og dýrmætar upplýsingar varðandi þol breytileikans munu bætast við.

Atýpisk riða algengari í AHQ-gripum en öðrum

Ólíkt hinum ljósgrænum breytileikum er AHQ algengari í kindum, sem greinast með atýpiska riðu (Nor98). Meira um það hér.

AHQ og næmi í útlöndum

Í lokin nokkur orð um AHQ í útlöndum. Meðgöngutíminn í smittilraunum á Ítalíu reyndist lengri með AHQ/ARQ en með ARQ/ARQ: 1,5 sinnum við smit beint í heilann og 1,3 sinnum við smit í gegnum munninn; AHQ/AHQ í samanburði við ARQ/ARQ (eingöngu beint í heilann): 1,7 sinnum lengri. Jákvæðu gripirnir voru einnig jákvæðir í eitlum, ekki bara í heilanum (sjá líka neðst á síðu um N138). Í Englandi hafa komið fram riðujákvæðar kindur bæði með AHQ/ARQ (en hlutfallslega eins fáar og á Íslandi – fjárfjöldinn þar er 15 milljónir) og AHQ/AHQ. Einnig í Þýskalandi hafa komið fram jákvæðir gripir með AHQ/ARQ, en hefðbundin riða hefur þar ekki verið eins algeng og í Englandi.