Hvað er „næmi“? Flokkun í dag

Hvað skiptir máli? Um genasamsætur, arfgerðir, næmi …

Aðalspurning er: Hversu næm er hin eða þessi kind fyrir riðusmiti?

  • Fyrst þarf að hafa í huga að hver og einn gripur er með 2 genasamsætur, frá sitthvoru foreldri. Samt ekki með fleiri.
  • Hitt er að það finnst venjulega hámark 1 stökkbreyting í hverri genasamsætu, en ekki fleiri. Auk þess getur verið, að engin stökkbreyting finnist („hreint“ ARQ – villigerð).

Þess vegna getur sami gripur borið hámark 2 mismunandi breytileika – sem kallast arfblendið (t.d. AHQ/ARQ). Ef hann er arfhreinn, eru báðar genasamsætur með sama breytileika (t.d. C151/C151). Báðir breytileikar hafa áhrif á næmi einstaklingsins. Þessi samsetning úr tveimur breytileikum (sömu eða ólíkum) kallast arfgerð.

  • Til að meta næmi ákveðins grips, verður maður alltaf að taka tillit til arfgerðar hans – sama á við í samanburðarrannsóknum innan riðuhjarðar.
  • En til að fá yfirlit yfir samsetningu hjarðar eða stofns, er þægilegra að nota genasamsætur – því arfgerðirnar geta verið mjög margar á meðan það eru hámark 7 mismunandi breytileikar til hér á landi.
  • Það er alveg sama hvort maður skrifar t.d. VRQ/ARQ eða ARQ/VRQ, röðin hefur enga sérstaka merkingu og er bara tilviljun – báðar arfgerðir virka nákvæmlega eins.

Hvenær telst arfgerð riðuþolin?

Sumir halda að riðuþolin arfgerð þýði að það hefur aldrei fundist neinn riðujákvæður gripur með þessa arfgerð. En það er ekki rétt. Riðuþolin arfgerð þýðir að talsvert færri gripir með þessa arfgerð fá riðu en búast mætti við miðað við fjölda gripa. Dæmi:

  • Ef arfgerð X nemur 50% af stofninum, en bara 1% af riðujákvæðum kindum, er hún augljóslega riðuþolin. Þrátt fyrir 1% riðujákvæðar kindur er hægt að nota þessa arfgerð til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og þar með verður hann smám saman það sjaldgæfur að það er ekkert vandamál lengur.
  • Ef arfgerðin Y hins vegar nemur hin 50% af stofninum, en 99% af riðutilfellum, er hún greinilega mjög næm fyrir riðu og líkurnar eru mjög miklar að kind með þessa arfgerð smitist.

Arfgerðin ARR/ARQ er ekki algjörlega ónæm þótt þessi arfgerð flokkist alþjóðlega sem verndandi – í Englandi fundust t.d. á milli áranna 2002 og 2013 samtals 4 jákvæðir gripir með ARR/ARQ. En þar sem hlutfall arfgerðarinnar í stofninum er hátt (og fór vaxandi á þessu tímabili), eru líkurnar samt mjög litlar að ARR/ARQ-gripur veikist. Það dugar.

Smitar gripur frá sér?

Annað atriði sem skiptir máli hér: Í hversu miklu mæli smitar riðujákvæður gripur frá sér? Þeim mun fleiri líffæri sem sýkjast eða eru partur af sjúkdómsferlinu, sem mun meira smitar gripurinn frá sér – og öfugt. Í næmum kindum eru eitlarnir fyrstir af öllu riðujákvæðir, heilinn hins vegar oftast talsvert seinna. Heilinn einn og sér getur ekki smitað aðrar kindur eða umhverfið að neinu ráði. Neikvæðir eitlar í „heilajákvæðum“ grip benda til þess að hann er ekki hættulegur öðrum. ARR/ARQ er gott dæmi um slíkt.

En við vitum líka að ekki einu sinni allar næmar kindur veikjast, sem komast í snertingu við smitefni. Það þýðir, að allar arfgerðir sem eru með eitthvað þol að ráði – þótt þetta þol sé ekki 100% -, stórminnka líkurnar á að riða stingi sér niður og breiðist út í viðkomandi hjörð. T.d. hafa fundist 2 riðujákvæðar kindur með AHQ/ARQ (2004 og 2017), samt hefur aldrei komið upp riða á Ytra-Vallholti – umkringt riðusmiti -, þar sem ræktað hefur verið fyrir AHQ í 15 ár.

ARQ og VRQ langnæmust – allt hitt talsvert betra

Til að orða það öfugt: ARQ/ARQ, ARQ/VRQ, VRQ/VRQ eru augljóslega langnæmustu arfgerðirnar – meira um það hér. Hins vegar hefur aldrei fundist riðujákvæður gripur hér á landi með arfgerð sem inniheldur hvorki ARQ né VRQ, þ.e. sem er samansett eingöngu úr „grænum“ og/eða „bláum“ breytileikum – og þessi niðurstaða er tölfræðilega marktæk. Gesine Lühken prófessor (og fleiri) segja þess vegna, að við ættum aðallega að losa okkur við ARQ og VRQ – mjög líklega sé riðuvandamálið þá þegar úr sögunni.

En við erum rétt að byrja, sérstaklega ARQ má enn finna í mjög stórum hluta stofnsins og það er nauðsynlegt að tapa sem minnst af dýrmætu erfðaefni. Þess vegna er samkvæmt Gesine skynsamlegt að vinna næstu árin líka með gripi sem eru „grænir“ bara „öðru megin“, en enn ekki arfhreinir grænir eða græn-bláir. Meira um það hér (neðst á síðunni).

Mismunandi yfirlitstöflur varðandi næmi

Hér er annars besti staðurinn til að birta eftirfarandi yfirlitstöflur.

Yfirlit 1 (tvær töflur)

Ráðleggingar alþjóðlegs rannsóknarhóps sem samanstendur af leiðandi riðusérfræðingum með 20 til 30 ára reynslu á þessu sviði, m.a. Christine Fast, Gesine Lühken, Stefaníu Þorgeirsdóttur, Vincent Béringue og Romolo Nonno. Þær eru úr skýrslu um lykilrannsóknir á Íslandi sem birtist í október 2023; þessi skýrsla er stútfull af mjög áhugaverðum rannsóknarniðurstöðum (því miður bara til á ensku til þessa). Meira um rannsóknarhópinn hér.

„Yes“ þýðir að flutningur gripa á milli hjarða ætti samkvæmt ráðleggingum vísindamannanna að vera heimill einnig í riðuhólfum (en ekki frá bæjum þar sem riða hefur komið upp síðustu 7 ár) og að það á að hlífa þessum gripum ef það kemur upp riða:

Yfirlit 2

Flokkun arfgerða varðandi næmi úr Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu (júlí 2024), sem Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir vann með aðkomu Sigurbjargar Ólafar Bergsdóttur, Auðar Lilju Arnþórsdóttur (MAST), Eyþórs Einarssonar (RML) og Trausta Hjálmarssonar (BÍ).

N = „næmt“, MV = „mögulega verndandi“, V = „verndandi“.

Athugasemd KE: Flokkinn „lítið næmt“ vantar hér; lítið næmi breytileikinn N138 lendir þar með í sama flokk og næmu breytileikarnir ARQ og VRQ. Einnig er arfgerðin ARR/VRQ sannanlega talsvert minna næm en t.d. ARQ/VRQ – meira að segja næmisflokkun ESB tekur tillit til þess.