Spurt & svarað
Ath: Svörin endurspegla mína persónulega skoðun, sem byggir á niðurstöðunum alþjóðlega rannsóknarhópsins.
Fleiri spurningar eru velkomnar, ef þú finnur svarið ekki annars staðar á þessari heimasíðu – hafðu bara samband!
(Eftir 10. spurningu hætti ég að nota númer og bæti núna nýjustu spurningunum alltaf við efst. Þannig að það borgar sig að kíkja reglulega við!)
Spurning „tvílembingar“: Geta tvílembingar verið með ólíka greiningu, eða er nóg að arfgreina annað lambið?
Svar „tvílembingar“: Tvílembingar eru tvíeggja tvíburar – þannig að erfðaefnið þeirra er misjafnt. Ef foreldrar þeirra eru t.d. með ARR/ARQ og T137/AHQ getur annað lambið verið t.d. með T137/ARR og hitt með AHQ/ARQ. Í stuttu máli: Þú þarft að arfgerðagreina bæði lömbin.
Spurning „spurningarmerki“: Hvað þýðir spurningarmerki í Fjárvís við gripinn?
Svar „spurningarmerki“: Ef þú heldur músinni yfir spurningamerkinu koma upp skilaboð um af hverju villumeldingin kom, svo geturðu séð arfgerðina undir arfgerðargreiningum inni í gripnum.
Spurning „söluarfgerðir“: Hvaða arfgerðir eru „söluvara“?
Svar „söluarfgerðir“: Þetta fer eftir hólfi – bæði seljandans og kaupandans. Það er til sérstök síða um það, sjá hér.
Spurning „sýnablað“: Hvað geri ég ef ég hef gleymt að forskrá DNA sýni í Fjárvís áður en ég setti þau í póst?
Svar „sýnablað“: Hringdu í Oddnýju hjá RML á Hvanneyri, 516 5037, eða í Sigurð hjá RML í Reykjavík, 516 5043/896 9926 (eftir því hvert þú sendir sýnin), og útskýrir vandamálið. Kannski geta þau sent þér mynd af blöðunum.
Spurning „haustbók“: Hvað þýðir dökkblátt flagg með 41 inn í flaggið og ekkert annað flagg í prentuðu útgáfunni haustbókarinnar?
Svar „haustbók“: Þetta er tæknileg villa. Ef það koma „skrítin“ flögg fram í prentuðum útgáfum haust- eða vorbóka, athugaðu í Fjárvís í tölvunni í staðinn. Þar ætti það að vera rétt.
Spurning 1: Prinsessa er með T137/ARQ. Ef hún verður sædd með T137, eru þá 50% líkur á að lömbin hennar fái T137?
Svar 1: Ef hrúturinn er með T137/x, Þá eru líkurnar 75% á eitthvað með T137 og 25% að lambið verður arfhreint fyrir T137. Ef hann er með T137/T137, þ.e. arfhreinn, þá er 100% víst að lambið verður með T137 og líkurnar eru 50% að það verði arfhreint sjálft. Meira um það hér.
Spurning 2: Móa er með rautt og blátt flagg. Er hún mikið næm af því að V136 er á undan? Er ekki viss hvernig þetta virkar þegar að það er rautt og blátt!
Svar 2: Röðin skiptir engu máli! En hvort genasamsætanna („helminga“) skipta máli. Móa er næm, en ekki eins næm og mamma hennar með ARQ (gult) plús V136 = VRQ (rautt). Hún sjálf getur borið lömbum með N138 (50% líkurnar) og með V136 (líka 50%). Ef hún er mjög góð og búið þitt ekki á áhættusvæði, borgar sig að nota hana samt áfram, en mikilvægt er að hafa alltaf „grænan“ hrút á móti (dökk- eða ljósgrænan) og arfgerðagreina lömbin – helst eingöngu setja lömb á sem eru með grænt plús blátt. Sjá líka hér (grænt + rautt).
Spurning 3: Er ARQ betra en VRQ?
Svar 3: Svarið er ekki einfalt. Að meðaltali er VRQ hér á landi næmara en ARQ. En annars fer það eftir stofni. Nokkrir íslenskir riðustofnar eru greinilega búnir að „sérhæfa“ sig í ARQ og smita ARQ/ARQ-kindur frekar en kindur með VRQ. Samt eru enn til stofnar hér sem smita sérstaklega vel VRQ/VRQ eða allt annað með VRQ. Eða jafnvel bæði. Vincent Béringue sýndi fram á þetta fyrirbæri í fyrirlestrinum sínum á Miklagarði í júní 2023 (og Sigurbjörn Árni Arngrímsson kom með passlega spurningu í lokin). Í stuttu máli: Það borgar sig að rækta með tímanum bæði VRQ og ARQ úr stofninum sínum. Meira um þetta hér.
Þumalregla: Setja helst á eingöngu lömb með T137, N138, C151, H154 (AHQ) eða R171 (ARR) – eða 2 ólíka af þessum breytileikum (t.d. N138/H154). Þetta á sérstaklega við á öllum svæðum þar sem riða hefur komið upp (einnig ef það var síðast fyrir 70 árum – eins og við vitum í dag). Fyrstu árin gerir það ekkert til þótt það sé ARQ (eða meira að segja VRQ) á móti nema þú sést á áhættusvæði; með árunum hverfur þetta þá sjálfkrafa.
Spurning 4: Hver er munurinn á eldri og nýrri arfgerðaupplýsingum í Fjárvís?
Svar 4:
- Eldri greiningar fram á 2020/21: sýna eingöngu sætin 136 og 154; breytileikar í öðrum sætum sést ekki. Kind með ARR/ARQ eða T137/N138 eða slíku virðist með „hreint“ ARQ/ARQ. Til að sjá hvort um eldri greining er að ræða er best að gera alla „arfgerðadálka“ sýnilega í gripaleit. Ef það er tómt í sætunum 137, 138, 151 og 171, þá er augljóst að um eldri greining sé að ræða og dýrmætar upplýsingar vantar.
- Eldri greiningar, en með sæti 171: Á tímabili voru „hefbundnar evrópskar arfgerðagreiningar“ framkvæmdar (aðallega 2021) – sætin 136, 154, 171. Þá sést auk þess hvort gripurinn er með ARR – sem var samt aldrei tifelli á meðan þessar greiningar voru í boði.
- Nýrri greiningar: Öll sex sæti sem virðast skipta máli í íslenska fénu eru greind: 136, 137, 138, 151, 154 og 171.
Spurning 5: Hvað þýðir SN eða NN í dálknum 138 í Fjárvís? Er það gott eða slæmt?
Svar 5: Þessi gripur er arfblendinn fyrir N138 ef hann er með SN og arfhreinn fyrir N138 ef hann er með NN. Meira um þessa stafi á þessari síðu. Hin spurningin fer eftir því, hvað er í hinum dálkum. Meira um næmi/þol breytileikans N138 finnst hér. Hann er allavega talsvert betri en ARQ (gult) eða VRQ (rautt). Og NN er betri en SN, ef það finnst enginn stökkbreyting í hinum sætum hjá SN-gripnum!
Spurning 6: Er hægt að greina riðu úr vefjasýni úr eyra?
Svar 6: Nei, það er ekki hægt. Vefjasýni úr eyra (tekið með sérstaka sýnatökutöng sem allir þekkja sem eru búnir að taka sýni til arfgerðagreiningar) nýtist mjög vel til að einangra DNA gripsins og „lesa“ arfgerð príonpróteinsins – en til að greina sjúkdóminn riðu, þarf sýni úr heila eða eitlavef, „venjulegur“ vefur hentar ekki til þess. Sjá meira um það hér.
Hins vegar er hægt að einangra DNA úr heila- eða eitlasýni til að arfgerðagreina grip sem var riðugreindur. Það þýðir að hægt er að arfgerðagreina líka gamlar riðuhjarðir sem lætur mikilvægar upplýsingar í ljós: Hægt er að bera saman arfgerðir jákvæðra og neikvæðra kinda úr sömu hjörð sem segir manni þónokkuð um næmi arfgerðanna – meira um það hér.
Spurning 7: Er hægt að arfgerðagreina sýni úr eyra uppstoppaðs hrúts?
Svar 7: Því miður ekki. Við uppstoppun/sútun verður DNAið að hluta til eyðilagt og það er ólíklegt að hægt er að fá áreiðanlega niðurstöðu.
Spurning 8: Kemur einhver merking inn í Fjárvís ef DNA-sýni hefur verið ónýtt/ógreinanlegt?
Svar 8: Já. Leiðbeining til að finna þessar upplýsingar er hér.
Spurning 9: Hvaða fánar er best að taka til lífs á lömbum nú í haust ? Erum ekki alveg að fatta þessa fána…
Svar 9: Í stuttu máli: Settu á sem mest af grænu og bláu og sem minnst af gulu og rauðu. Það er mjög gott að vera með grænan og grænan fána eða grænan og bláan. Fínt með grænan og gulan. Einnig í góðu lagi með bláan og bláan. Og líka blátt og gult er talsvert betra en gult og gult (eða gult og rautt).
Spurning 10: Hvað þýða þessi mismunandi stundarglös í Fjárvís? Hvað er „Fjárvís-greining“?
Svar 10:
- Appelsínugult stundarglas við gripinn þýðir að hér er bara um sjálfvirka útreikningu að ræða („Fjárvís-greining“) sem byggir á arfgerðum foreldranna.
- Grænt stundarglas er „raungreining“, þ.e. sýni úr gripnum sjálfum var arfgerðargreint.
Fleiri spurningar og svör eru að finna hér.