„Óvæntir“ T137-gripir hjá þér? Athugaðu núna!
T137 er enn innan við 1% stofnsins og allt of sjaldgæft þrátt fyrir afar sterka mótstöðu gegn riðu (meira um kosti T137 hér). En eftir nærri tveggja ára hlé kom rétt fyrir jól 2024 óvænt ný T137-uppspretta í ljós – á Grímsstöðum (meira um þessa sögu hér). Bóndinn uppgötvaði að það var ekki hægt að tengja T137-gripina hans við neina þekkta uppsprettu, sem voru átta á þeim tíma. Eftir það fór boltinn að rúlla, fleiri slík bú komu fram og ég fór í markvissa leit eftir nýjum uppsprettum, þannig að fjöldi T137-uppspretta tvöfaldaðist innan tveggja mánaða.
Augljóslega luma þónokkrir bændur á þessum gersemum án þess að gera sér grein fyrir verðmæti þeirra:
- þeim mun fleiri óskyldar uppsprettur, þeim mun meiri er erfðafræðilegi fjölbreytileikinn við ræktun riðuþols – mjög einfalt að koma í veg fyrir óæskilega skyldleikarækt
- hver og ein ný uppspretta getur hjálpað til við að finna fleiri T137-gripi einnig á öðrum bæjum, ef tengdir ættingjar voru seldir eða lánaðir
- bændur með slíkt fé eru með sérstöðu ef þeir ætla að selja líflömb – þannig að það borgar sig líka fjárhagslega
Hvernig getur þú fundið út, hvort hjá þér leynist svoleiðis gripur?
Í stuttu máli ferðu inn í Fjárvís, síar í „gripaleit“ eftir T137 og skoðar svo ættartré hvers og eins grips úr þessum lista – myndrænar leiðbeiningar finnast neðst hér á síðunni. Ef þú finnur aftar í ættinni grip frá þekktu T137-upprunabúi (sjá yfirlitskort á þessari síðu), þá er hann bara „venjulegur“ T137-gripur – sem er auðvitað líka gott. En það sem við erum að leita eftir er að í ættinni finnist EKKERT af þessum þekktu uppsprettum!
Ef þú átt bara einn slíkan „ótengdan“ grip, er nauðsynlegt að endurtaka arfgerðagreininguna til að útiloka tæknilega villu. Ef þú átt tvo sem eru meira að segja skyldir, þá er mjög ólíklegt að um villu sé að ræða!
Í öllu falli hafðu samband við mig ef þú finnur „ótengdan“ T137-grip (síminn er átta þrír einn þrjátíuogátta tíu eða þú sendir skilaboð á Facebook-messenger) og við skoðum þetta betur!
Hér fyrir neðan er sýnt í myndum hvernig þú ferð að þessu í Fjárvís. Björk, sem ég notaði þar sem dæmi, er ættuð frá Reykjum/Þúfnavöllum sem eru þekktar uppsprettur – þess vegna er þetta ekkert sérstakt. En hefði t.d. eingöngu verið Hvammshlíð á bak við hana – eða Ytri-Hofdalir eða Bakki eða Hof eða einhver annar bær sem er ekki þekktur „upprunabær“, þá væri hún einmitt það sem við erum að leita eftir: möguleg ný uppspretta!
Þar sem fyrstu T137-gripir fóru á aðra bæi og á sæðingastöð haustið 2022, eru sérstaklega þeir T137-gripir spennandi, sem fæddust 2022 eða fyrr. Þeir fæddust örugglega á einhverjum „upprunabæ“. Þannig fundum við t.d. hjörðina hans Jóakims á Ólafsfirði sem uppsprettu: Hann á mæðgur með T137, fæddar 2017 og 2019. Þetta gat ekki verið neitt annað en nýr upprunabær!
leiðbeiningarmyndband (smella)
Skjámyndir – skref fyrir skref:








