Þessi síða er einkaframtak. Sjá neðst.

Ný T137-uppspretta á Grímsstöðum!

Nýi listinn yfir T137-sölubú leiddi óvænt eitthvað allt annað í ljós: nýja T137-uppsprettu, alveg ótengda hinum 8 uppsprettum með lifandi T137-gripi í dag! Auk þess á alveg nýju svæði: á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit! Bærinn er í Skjálfandahólfi sem er „ósýkt“ hólf sem er frábært m.t.t. dreifingar breytileikans næstu árin.

Elín Steingrímsdóttir er bóndinn á búinu en Karen Líf Sigurðardóttir frænka hennar er með henni í öllu. Hún hafði einmitt samband við mig þegar hún uppgötvaði að engin „staðaluppspretta“ í skráningarforminu hentaði þeirra T137-kindum … Prinsessa, f. 2019 og Glæða, f. 2024 (sjá myndirnar fyrir neðan, sem Karen Líf tók) eru mæðgur, arfgerðagreindar á sitt hvoru ári, þannig að mistök eru mjög ólíklegar. T137 virðist koma af gamla heimaræktaða stofninum, nánar tiltekið annaðhvort af 00-702 Valla eða 94-468 Dimmu frá Grímsstöðum 4.

Í Bændablaðinu birtist grein í dag sem ég læt fylgja hér – og ég bætti við nýjum valmöguleika í skráningarformið! Annars er enn hægt að skrá sig á listann yfir T137-sölubú – meira um það hér.