Gamla „Núpsstaðar-T137“ loksins fundið aftur!
Síðan „nýjar“ T137-uppsprettur fundust í Mývatnssveit og á Flögu rétt fyrir jólin, komu fleiri bendingar tengdar Skaftafellssýslum og leitin er í fullum gangi. Þessi leit á sér líka stað á Austurlandi því eftir riðuniðurskurð þar í kringum 1990 kom margt fjárskiptafé úr einmitt þessu svæði. Það sem við vissum áður: Gamli stofninn á Núpsstað var með óvenjuhátt T137-hlutfall – af 10 sýnum, sem voru tekin þar 1998, voru 6 með T137. Þegar 2021 leituðum við í gripum í nágrenni sem áttu ættir að rekja til Núpsstaðar – en árangurslaust.
Þess vegna telst það til stórtíðinda, að núna loksins, meira en 3 árum seinna, fannst þetta „gamla Núpsstaðar-T137“ aftur – í hjörðinni bræðranna Þorgeirs og Sigurbergs á Sunnuholti í Seyðisfirði – sem fengu Núpsstaðafé 1989. Ekki nema 4 sýni voru tekin til þessa en 2 af þeim reyndust með eftirsótta genið: lambhrútarnir á myndunum fyrir neðan, enn nafnlausir. Bræðurnir fækkuðu mikið síðustu árin og ekki nema 30 kindur eru eftir. Hér skall hurð nærri hælum …
Stofninn er mjög sérstakur, Núpsstaður átti sér mjög langa ræktunarsögu án þess að fylgja markmiðum „nútímasauðfjárræktunar“, háfætta og mjóa féð á Sunnuholti ber öll merki þess. Þótt það sé ekki spennandi fyrir hefðbundna ræktun, er það hins vegar afar heillandi fyrir alla sem hafa áhuga á „gamaldags“ fé, þótt aðallega til gamans sé.
Sýnataka úr eldri hrútunum og elstu ám er á dagskrá í næstu viku. Þórunn á Dvergasteini, frænka bræðranna, sér um sýnatöku og tók einnig myndirnar. Reyndar var það Ásgeir í Brekkubæ sem benti mér á Sunnuholt – Rannveig í Mörtungu hins vegar hafði bent mér á Ásgeir – og Guðfinna Harpa á Straumi hafði bent mér á Rannveigu. Frábært hvernig allir eru að vinna saman í þessum mikilvægum málum!