Rautt + grænt: áhættu- eða ræktunargripur?
Ertu með lamb sem er bæði með rautt og dökkgrænt flagg? Það þýðir að
- V136 = VRQ (næmt eða mjög næmt) og
- R171 = ARR (alþjóðlega viðurkennt sem verndandi)
koma saman í sama grip.
Það þýðir líka:
- Líkurnar eru 50% að undan þessum grip koma lömb með grænt flagg. Í þessum lömbum er „rautt“ alveg horfið og úr sögu – þessir eiginleikar hoppa aldrei yfir kynslóð.
- Líkurnar eru afar litlar að þessi „rauðgræni“ gripur veikist af riðu – en jafnvel ef svo ólíklega vildi til að svo yrði, myndi hann bara í mjög litlum mæli smita út frá sér, þar sem smitið finnst eingöngu í heilanum sjálfum og í eitlunum nálægt heilanum, en ekki annars staðar í líkamanum (ólíkt næmum arfgerðum).
- Ef það hefur aldrei komið upp riða á þínu svæði, er „rauðgrænn“ gripur nákvæmlega eins góður til undaneldis og „gulgrænt“ lamb (með gult og grænt flagg). Langbest er samt að velja maka á móti sem er með grænt flagg sjálfur – til að rækta smám saman bæði rautt og gult út úr stofninum.
- Í báðum tilfellum (hvort sem það er rautt eða gult á móti grænu) þarf að arfgerðagreina afkvæmin og setja eingöngu á lömb sem erfðu „græna helminginn“.
Þannig að þetta fer eftir aðstæðum:
- Hversu miklar líkur eru að það komi upp riða hjá þér eða í næsta nágrenni?
- Hversu margir gripir með grænt flagg ertu með til að velja úr? Bara örfáir eða fullt af þeim?
- Lofar viðkomandi gripur mjög góðu m.t.t. annara ræktunarmarkmiða?
Sama gildir í rauninni fyrir alla græna, líka ljósgræna breytileika og alveg sérstaklega fyrir arfgerðina V136/T137, því T137 er enn mjög sjaldgæfur breytileiki en á sama tíma langefnilegastur af þeim ljósgrænu.
Síðast en ekki síst: V136 = VRQ er ekki alltaf næmasti breytileikinn – villigerðin ARQ getur verið eins næm eða næmari, það fer eftir riðustofni sem er virkur á viðkomandi stað. Meira um þetta hér.